Búðarháls - tengivirki og raflína


08.03.2017

Framkvæmd

Tengivirki Landsnets við Búðarháls og Búðarhálslína 1 voru tekin formlega í notkun við athöfn þann 10. janúar 2014 þegar iðnaðarráðherra spennusetti virkið - og tengdi þar með Búðarhálsvirkjun við meginflutningskerfi Landsnets.

Tengivirkið við Búðarháls er það fyrsta af nýrri kynslóð tengivirkja Landsnets með yfirbyggðri skel sem á að draga úr rekstrarkostnaði, auka rekstraröryggi og draga úr umhverfisáhrifum. Það er búið tveimur rofareitum með 220 kV DCB aflrofum og hannað með það fyrir augum að hægt verði að stækka það síðar. 

Áhrifasvæði Búðarhálslínu 1 nær til Ásahrepps og Rangárþings ytra í Rangárvallasýslu. Línan er 5,6 km löng, 220 kV loftlína sem liggur frá tengivirkinu við Búðarháls að Langöldu, þar sem hún er T-tengd inn á Hrauneyjafosslínu 1. 

Útboðshönnun vegna línu og tengivirkis hófst haustið 2011 og auglýst var eftir tilboðum í helstu verkþætti í byrjun árs 2012. Í framhaldinu var samið við lægstbjóðendur, Orkuvirki ehf. vegna háspennubúnaðar í tengivirki og Ístak hf. vegna byggingar tengivirkis sem og vinnu við vegslóð, jarðvinnu og undirstöður vegna háspennulínunnar. Framkvæmdir hófust sumarið 2012 með lagningu vegslóða, vinnu við undirstöður fyrir möstur og byggingu tengivirkishússins. Sumarið 2013 voru háspennumöstrin reist, leiðari línunnar strengdur og lokið við uppsetningu búnaðar í tengivirkinu síðla árs 2013. Formleg spennusetning var í ársbyrjun 2014 og um sumarið var unnið að lóðarfrágangi við tengivirkið og frágangi á umhverfi og slóðum meðfram línunni.
Aftur í allar fréttir